Þorskafjörður – Uppsetning á aflögunarmæli

Verkfræðistofan Vista, í samstarfi við Vegagerðina, hefur lokið við að setja upp aflögunarmæli (e. Shape Acceleration Array) í vegstæði þar sem vegurinn þverar Þorskafjörð. 

Um er að ræða fyrsta mælinn af þessu tagi frá Measurand sem settur er upp á Íslandi til að mæla jarðvegsaflögun á láréttan flöt, en aðferðin hefur verið notuð í Noregi til dæmis þar sem verið er að koma fyrir fyllingum í sjó og þvera firði.

Aflögunarmælirinn var settur niður vestan við brúarstæðið í Þorskafirði. Suðurverk, sem fer með framkvæmd verksins, gerði rás þar sem mælinum var komið fyrir í -0,5 m.y.s, en mælirinn er 50 metra langur og hver hlekkur 1 meter á lengd. Til að verja mælinn fyrir skemmdum, og þannig að endurheimta mætti mælinn, var hann settur í 50 mm plaströr.

Búið að koma mælinum fyrir í rör og leggja í rás.
Unnið að undirbúningi áður en mælirinn er settur í 50 mm rörið. Hérna sjást 1 metra langar mælistikur á keflinu.

Mælirinn mælir aflögun milli hlekkja í undirlaginu sem er undir farginu, en upplausn mælinganna (e. resolution) fyrir hvern meter upp á 0,012 mm og nákvæmnin (e. precision) er 0,09 mm per meter. Tekin er mæling á fjögurra tíma fresti sem er send í skýjalausn Vista (Vista Data Vision), en gott fjarskiptasamband er á staðnum og því auðvelt að senda gögnin með GSM módemi. Einnig voru settar niður sigplötur í og við rásina þannig að bera megi saman mælingarnar og sannreyna niðurstöður. Frágangur á verkstað á að tryggja að hægt sé að ná mælinum úr kápunni (rörinu) að verki loknu og nýta aftur á öðrum stað.

DEILA