Snjótittlingur

Snjótittlingurinn er einkennisspörfugl á auðnum og í fjalllendi. Er fremur lítill spörfugl, á stærð við steindepil.

Karlfugl í sumarbúningi, sólskríkjan, er snjóhvítur, nema svartur á baki, axlarfjöðrum og vængbroddum, á veturna líkist hann kvenfugli. Á sumrin er kvenfuglinn ljósbrúnn, ljósari að neðan, með dökkt bak og yfirvængi með ljósum vængbeltum, svipuð en dauflitari á veturna. Er með rauðbrúnar kámur á höfði og bringuhliðum. Nýfleygir ungar eru allir gráleitir og án vængbelta. Annars eru hvítir vængreitir áberandi árið um kring á fljúgandi fuglum.

Flug snjótittlings er hratt og bylgjótt. Hann tyllir sér á steina, þök og víðar, þó sjaldan í tré. Er afar félagslyndur á veturna en á sumrin eru pör eða fjölskyldur saman.

Fæða og fæðuhættir:
Frææta, tekur melfræ og annað grasfræ, einnig ber. Á sumrin eru skordýr og áttfætlur mikilvæg og aðalfæða unganna. Sækja í kornmeti, svo sem hveitikorn, kurlaðan maís og brauðmola, sem lagðir eru út fyrir þá á vetrum. Kornakrar, sérstaklega óslegnir, eru gnægtabúr á veturna.

Af fuglavefur.is

DEILA