Samanburður á orkukostnaði heimila árið 2022

Líkt og undanfarin ár, hefur Byggðastofnun fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli, við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni, á nokkrum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli.

Viðmiðunareignin er einbýlishús, 140 m² að grunnfleti og 350m³. Almenn raforkunotkun er sú raforka sem er notuð í annað en að hita upp húsnæði, s.s. ljós og heimilistæki, en miðað er við 4.500 kWst í almennri rafmagnsnotkun og 28.400 kWst við húshitun án varmadælu en 14.200 kWst með varmadælu.

Heildarorkukostnaður, þ.e.a.s. raforku- og húshitunarkostnaður viðmiðunareignar, er hæstur í Grímsey 354 þ.kr. þar sem rafmagn er framleitt með díselrafstöð og húsin kynt með olíu.

Þar fyrir utan er heildarkostnaður hæstur í Nesjahverfi í Hornafirði 321 þ.kr. Á Ísafirði, Patreksfirði, Suðureyri, Flateyri og í Bolungarvík er algengast að hús séu tengd kyntum hitaveitum og þar er nú hæsti heildarorkukostnaður í skilgreindu þéttbýli eða 306 þ.kr. 

Lægsti heildarorkukostnaður landsins er á Seltjarnarnesi 157 þ.kr. en þar næst á Flúðum 161 þ.kr. og í Mosfellsbæ og Laugarási 169 þ.kr.

Skýrsluna í heild má finna á vef Byggðastofnunar

DEILA