Safn Gísla á Uppsölum

Til stendur að opna safn á heimili Gísla á Uppsölum en Gísli Oktavíus Gíslason, betur þekktur sem Gísli á Uppsölum, varð þjóðþekktur árið 1981 þegar Ómar Ragnarsson sótti hann heim í Stikluþætti.

Hann var einsetumaður og þóttu búskaparhættir hans fornir en í húsi hans var hvorki rafmagn né rennandi vatn.

Þátturinn, sem vakti misjöfn viðbrögð landsmanna, er líklega einn þekktasti sjónvarpsþáttur í sögu Ríkissjónvarpsins. Gísli fæddist árið 1907 og bjó á Uppsölum alla tíð, en hann lést árið 1986.

Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax hefur ákveðið að styrkja Félag um safn Gísla á Uppsölum til að ráðast í uppbyggingu á heimili Gísla í Selárdal á Vestfjörðum.

Styrkurinn nemur 9 milljónum króna og er talinn duga fyrir um 75% af kostnaði við opnun safnsins. Frekari fjársöfnun mun eiga sér stað á næstunni en stefnt er að opnun safnsins árið 2025. Áður hefur staðið til að opna safn um Gísla en þær hugmyndir urðu ekki að veruleika.

DEILA