RÚMUR ÞRIÐJUNGUR ÍBÚA LANDSINS HÁSKÓLAMENNTAÐUR

Hlutfall háskólamenntaðra íbúa landsins 25 ára og eldri hækkaði frá síðasta manntali, var 27,7% árið 2011 en 34,6% í manntalinu 2021.

Hlutfall með starfsmenntun á framhaldsskólastigi var hins vegar 24,6% árið 2011 en 22,4% árið 2021 og hafði því lækkað. Í dögunum birtir Hagstofan niðurstöður um landsmenn eftir menntunarstöðu 1. janúar 2021.

Alls voru 49.058 konur og 35.712 karlar 25 ára og eldri með háskólamenntun í manntalinu 2021. Flestir voru í aldurshópnum 35-44 ára og voru konur tæp 60% háskólamenntaðra í þessum aldursflokki. Konur voru talsvert fleiri í öllum aldursflokkum háskólamenntaðra fram til 65 ára aldurs.

Alls voru 54.735 íbúar landsins 25 ára og eldri með starfsmenntun á framhaldsskólastigi sem hæsta stig menntunar í manntalinu 2021. Talsvert fleiri karlar en konur voru með starfsmenntun sem hæsta menntunarstig. Fjölmennasti aldurshópurinn sem var með starfsmenntun á framhaldsskólastigi sem hæstu menntun var 55 til 64 ára hjá bæði körlum og konum eða alls 12.773 einstaklingar. Hlutfall starfsmenntaðra var 24,6% árið 2011 en 22,4% árið 2021 og hafði því lækkað. Fjölgun starfsmenntaðra 25 ára og eldri var 9,2% og hélst ekki í hendur við fjölgun íbúa á þessum aldri (20,4%).

DEILA