Röst í stað Baldurs

Vegagerðin kannar nú kaup á ferjunni Röst til siglinga á Breiðafirði í stað ferjunnar Baldurs.

Vegagerðin auglýsti á síðasta ári eftir skipi til leigu til fimm mánaða til siglinga á Breiðafirði en einungis barst eitt tilboð. Það hljóðaði upp á ríflega 300 milljónir íslenskra króna sem var nær 50% hærra en gert var ráð fyrir í kostnaðaráætlun og var tilboðinu því hafnað.

Á fundi fjárlaganefndar um miðjan desember kom fram að verði ferja leigð eða keypt til að fylla í skarð Baldurs sé það ferjan Röst, það sé eina ferjan sem í boði er.

Röst var smíðuð í Noregi árið 1991 og er 66 metrar á lengd og 13,4 metrar á breidd. Ferjan tekur 2.036 brúttótonn, 235 farþega og 42 bíla í hverri ferð.

Röst hefur það fram yfir Baldur, auk þess að vera 12 árum yngri, að hún er með 2 aðalvélar en Baldur bara eina.

Til samanburðar er Baldur 68,3 m á lengd, 11,6 m á breidd og er 1.677 brúttótonn. Hann var smíðaður árið 1979. Baldur tekur 280 farþega og 49 bíla í ferð.

DEILA