Rannsóknasetur í byggða- og sveitarstjórnarmálum

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor Háskólans á Bifröst hafa undirritað samning um stofnun rannsóknaseturs í byggða- og sveitarstjórnarmálum. Með samningnum styður ráðuneytið við uppbyggingu og rekstur setursins, sem starfrækt verður af Háskólanum á Bifröst.

Markmið samningsins er að efla jákvæða byggðaþróun og styrkja sveitarstjórnarstigið á Íslandi með markvissum rannsóknum sem stuðla að hlutlægri og faglegri umræðu og leiða til betri stefnumótunar og ákvarðanatöku. Jafnframt að efla nám og fræðslu um byggða- og sveitarstjórnarmál.

Margrét þakkaði það traust sem Háskólanum á Bifröst væri sýnt. Hún sagði að skólinn myndi leggja áherslu á að skapa þverfaglegan og opinn samstarfsvettvang um byggða- og sveitarstjórnarmál með sérstaka áherslu á samstarf við ráðuneytið, Byggðastofnun, Sambands íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga.

Samningurinn gildi til þriggja ára eða til ársloka 2025. Árlegt framlag ráðuneytisins verður 12 m.kr. sem kemur annars vegar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og hins vegar í gegnum byggðaáætlun.

DEILA