Ráðherra áformar kvótasetningu á grásleppu

Í Samráðsgátt stjórnvalda er nú öðru sinni með mánaðar millibili tilkynnt að matvælaráðherra áformi frumvarp um breytingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (veiðistjórn grásleppu).  Tilkynning þessa efnis hafði verið tekin úr Samráðsgátt, en birtist nú aftur.

Lagt til að hlutdeildarsetja grásleppu og að aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin með tilliti til aflareynslu sem fengin hafi verið á grundvelli leyfis sem skráð er á viðkomandi skip á tilteknu tímabili.

Áformað er að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, nemi aldrei hærra hlutfalli af heildaraflahlutdeild í grásleppu en 2%. Ef miðað er við aflahæsta skip hverrar vertíðar, t.d. á árunum 2014-2016, er meðalhámarksaflahludeild vertíðarinnar 1,2%.

Verði frumvarpið að lögum er því svigrúm fyrir þá sem stunda grásleppuveiðar til að auka nokkuð heimildir sínar. Hafa ber þó í huga í þessu sambandi að dæmi eru um að útgerð reki tvö til þrjú skip sem stunda grásleppuveiðar og því segir hámarksafli á skip ekki endilega til um hver hámarksafli er á útgerð.

Þá er lagt til að aflaheimildir í grásleppu verði svæðisskiptar og að framsal aflaheimilda verði eingöngu heimilt innan tiltekinna svæða og framsal milli svæða verði óheimilt. Þannig verði tryggt að aflaheimildir hverfi ekki af tilteknum svæðum en veiti samt sem áður möguleika til hagkvæmari veiða innan svæðanna.

Þá er lagt til að sérstakur nýliðunarpottur fyrir grásleppu verði settur á í gegnum 5,3% kerfið og Fiskistofu verði falið að halda utan um úthlutun þess til nýliða.

Frumvarp sama efnis var lagt fram af Kristjáni Þór Júlíussyni fv. sjávarútvegsráðherra þann 16. desember 2020.  Að lokinni 1. umræðu var það afgreitt til atvinnuveganefndar þar sem það fékk ekki afgreiðslu.   

Landssambandi smábátaeigenda segir það koma á óvart að matvælaráðherra skuli nú taka ákvörðun um sams konar breytingar sem ekki fengust samþykktar fyrir tveimur árum.  

DEILA