Öflugt háskólanám í þágu fiskeldis

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ákveðið að úthluta yfir milljarði króna til aukins samstarfs háskóla með það að markmiði að auka gæði námsins og samkeppnishæfni skólanna.

Væntanleg úthlutun var auglýst í haust og 48 umsóknir bárust og sótt var um styrki fyrir samtals 2,8 milljarða króna.

Upphaflega var ætlunin að úthluta allt að milljarði króna til samstarfsins en vegna gæða umsóknanna og mats á líklegum árangri þeirra hefur verið ákveðið að úthluta tæplega 1,2 milljörðum.

Eitt þeirra verkefna sem fær úthlutun er Öflugt háskólanám í þágu fiskeldis sem Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Hólum, Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri ásamt Háskólasetur Vestfjarða standa að.

Þessir aðilar fá 58 m.kr. til að bjóða upp á BS og MS námi í eldi, ræktun og nýtingu sjávar- og vatnalífvera, samhliða samræmdum rannsóknum og rannsóknainnviðum.

Námið á að skila öflugu fagfólki til starfa og nýsköpunar á þessu ört vaxandi sviði matvælaframleiðslu. Verkefnið mun stuðla að forystuhlutverki Íslands í sjálfbæru lagareldi sem tekur fullt mið af opinberum stefnum um sjálfbærni, loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni. 

DEILA