Knattspyrna – Fatai Gbadamosi gengur til liðs við Vestra

Vestri og Kórdrengir hafa náð samkomulagi um félagsskipti Fatai Gbadamosi frá Kórdrengjum til Vestra.

Fatai, sem er 24 ára varnarsinnaður miðjumaður, spilaði 24 leiki fyrir Kórdrengi á síðastliðnu tímabili í deild og bikar en það var annað tímabil hans á Íslandi eftir að hafa gengið til liðs við Kórdrengi árið 2021 frá Shooting Stars í Nígeríu.

Fatai, sem á leiki fyrir U-21 árs landslið Nígeríu, skrifar undir þriggja ára samning og býst stjórn Vestra við miklu af honum á komandi árum.

Davíð Smári þjálfari Vestra og Fatai þekkjast auðvitað vel eftir tvö ár saman hjá Kórdrengjum.

“Ég hef leitast við að fá Fatai vestur frá því að ég tók við sem þjálfari Vestra, en hann er gríðarlega sterkur og vinnusamur leikmaður sem kemur til með að styrkja okkur mikið” hafði Davíð um málið að segja eftir að Fatai hafði skrifað undir.

Fatai, sem er væntanlegur til landsins nú seinna í janúar, segist spenntur að hitta nýja liðsfélaga sína og halda áfram vinnu sinni með Davíð Smára, “Við Davíð þekkjumst vel og vonandi á ég eftir að geta sýnt hæfileika mína fyrir vestan og gera gott lið Vestra enn betra.

DEILA