Kaldur desember um allt land.

Desember var óvenjulega kaldur um allt land. Meðalhiti í byggðum landsins var -4,0 stig, og hefur desembermánuður ekki verið kaldari á landinu síðan 1973. Mánuðurinn var áttundi kaldasti desembermánuður á landsvísu frá upphafi mælinga.

 Að tiltölu var kaldara inn til landsins, en ekki eins kalt við Suðurströndina, á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Neikvætt hitavik miðað við síðustu 10 ár var mest -6,6 stig í Húsafelli, en minnst -2,5 stig í Bolungarvík.

Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í desember miðað við síðustu tíu ár (2012 til 2021).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 0,7 stig í Surtsey en lægstur -10,9 stig í Sandbúðum. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -9,4 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,4 stig á Seyðisfirði þ. 1. Mest frost í mánuðinum mældist -27,4 stig við Kolku þ. 30. Mest frost í byggð mældist -27,1 stig í Möðrudal þ. 24.

Vindur á landsvísu var 0,5 m/s undir meðallagi. Norðlægar og norðaustlægar áttir voru ríkjandi allan mánuðinn. Hvassast var dagana 19. til 21. þegar norðaustanhvassviðri gekk yfir landið.

DEILA