Skíðagöngumaðurinn Dagur Benediktsson var útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022 í gær, sunnudaginn 8. janúar.
Dagur var tilnefndur af Skíðafélagi Ísfirðinga og í rökstuðningi með tilnefningunni segir:
„Dagur hefur æft skíðagöngu með SFÍ frá unga aldri og keppir nú um allan heim fyrir hönd Ísfirðinga.
Hann hefur lagt mikið á sig til að komast á þennan stað sem hann er í dag enda krefst það gífurlegs sjálfsaga að komast langt í einstaklingsíþrótt. Til að mynda ver Dagur yfir 700 klst. í æfingar á ári sem er að meðaltali um 2 klst á dag, alla daga ársins. Hann er mikil fyrirmynd fyrir krakkana í SFÍ og passar að kíkja á æfingar þeirra þegar hann er staddur á svæðinu.
Dagur er í A-landsliðinu í skíðagöngu og keppir á mörgum helstu stórmótum heims, enda er hann einn af topp þremur Íslendingum á heimslista í skíðagöngu karla. Hann vann til fjölda verðlauna á síðasta ári og má þá helst nefna að hann var annar í mark af öllum í 50 km Fossavatnsgöngu.“
Til gamans má geta þess að fyrir 40 árum, í febrúar 1983, hlaut móðir Dags, Stella Hjaltadóttir, útnefninguna íþróttamaður Ísafjarðar.