Íslenskukennsla fyrir útlendinga til umfjöllunar í ráðherranefnd um íslenska tungu

Mánudaginn 16. janúar síðastliðinn kynnti Sólveig Hildur Björnsdóttir, formaður Símenntar – samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, ráðherranefnd um íslenska tungu hugmyndir félagsins um tækifæri og leiðir til að efla íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þá sótti Sólborg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Mími, fundinn með Sólveigu.

Á fundinum fóru fulltrúar Símenntar yfir tækifæri og leiðir til að efla íslenskukennslu fyrir útlendinga. „Við nefndum sérstaklega fimm leiðir í þessu sambandi sem fengu að mínu mati góða áheyrn,“ segir Sólveig. „Símennt bindur miklar vonir við stefnumörkun í málaflokknum. Það er von Símenntar að símenntunarmiðstöðvar fái víðtækara hlutverk við að mæta ákalli um aukinn stuðning til handa innflytjendum á Íslandi, ekki síst hvað íslenskukennslu varðar,“ segir Sólveig og bendir á að það felist fjölmörg tækifæri í því kerfi sem símenntunarmiðstöðvar innan Símenntar mynda á landsvísu. „Kerfið hefur nýst vel og er notkun þess mikil. Brýnt er að nýta það betur og í fleiri áttir enda mikil samfélagsleg auðlind sem ákveðin sátt ríkir um. Það er því fagnaðarefni að ríkisstjórnin horfi til þessa í stjórnarsáttmála sínum.“

Á fundinum voru ráðherrar fimm ráðuneyta: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra , Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra. Einnig sátu fundinn ýmsir embættismenn og aðrir gestir.

Hér eru tíunduð dæmi um helstu tækifæri og leiðir til að efla íslenskukennslu fyrir útlendinga sem Símennt kom á framfæri á ráðherrafundinum:

1. Miðlæg ráðgjöf og þróun málaflokksins

Til að tryggja mikilvæga þróun fagsins væri æskilegt að kennarar og símenntunarmiðstöðvar gætu leitað sér faglegrar ráðgjafar, t.d. hvað varðar þróun í málaflokknum, kennsluefni, kennsluaðferðir, gagnabanka, hvernig á að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp, ólæsa nemendur o.s.frv.

2. Fagnámskeið fyrir kennara á námskeiðum í íslensku fyrir útlendinga

Þeir sem kenna í málaflokknum geti sótt fagnámskeið þar sem farið væri m.a. yfir gæðaviðmið við kennslu íslensku fyrir útlendinga, kennslufræði fullorðinna, kennslu ólíkra nemendahópa á mismunandi getustigi, menningarnæmi, kennsluefni og fjölbreyttar aðferðir við kennslu í samræmi við hæfniramma um kennslu íslensku fyrir útlendinga.

3. Stefna um skilgreinda hæfni aðfluttra í íslensku og kostnaðarþátttöku hins opinbera

Nauðsynlegt er að kveða á um námskrá og rétt innflytjenda til íslenskukennslu í lögum til þess að gera innflytjendur sýnilega í menntakerfinu og tryggja rétt þeirra til íslenskukennslu. Námskrár í íslensku fyrir útlendinga eru frá 2008 og 2010. Þörf er á endurskoðun þeirra og jafnframt að huga að lagalegri stöðu þeirra. Íslenskukennsla útlendinga er hluti af vernd íslenskrar tungu og því mjög mikilvægt að metnaður sé lagður í að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Skilgreina þarf íslenskukennslu fyrir útlendinga í lögum um framhaldsfræðslu og hlutverk símenntunarmiðstöðva sem og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í málaflokknum.

4. Skilgreina hæfniramma fyrir málaflokkinn

Mikilvægt er að skilgreina hæfni fyrir íslenskunám innflytjenda með sérstökum hæfniramma þess efnis. Með því má auka samræmi hjá fræðsluaðilum í framboði námskeiða og mat á árangri. Þá þykir nauðsynlegt að fræðsluaðilar skrái helstu upplýsingar um námsstöðu og námsárangur í samræmdan gagnagrunn til að auðvelda úrvinnslu, tölfræði og mat á námi milli skóla. Einnig þurfa nemendur að geta nálgast námsferil sinn í gegnum island.is.

5. Samræmt stöðumat og hæfnimat

Æskilegt er að innflytjendur geti leitað til sérstakra þjónustumiðstöðva sem liðsinna þeim við að fá mat á raunfærni og/eða viðurkenningu á menntun sinni frá heimalandinu. Þar væru símenntunarmiðstöðvarnar heppilegur valkostur.

DEILA