Góður gangur í vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum

Vinnuvélar á Dynjandisheiði.

Nýr og betri vegur um Dynjandisheiði bætir samgöngur á Vestfjörðum til muna og tengir saman byggðarlög.

Í myndbandi sem Vegagerðin hefur látið gera um nýbyggingu Vestfjarðarvegar (60) um Dynjandisheiði kemur fram að framkvæmdir ganga vel. Fyrri áfanga er lokið og vonast er til að þeim seinni ljúki árið 2025. 

Í myndbandinu er m.a. rætt við Sigurþór Guðmundsson, verkefnastjóra hjá Vegagerðinni. Þar kemur fram að nýi vegurinn eigi eftir að breyta miklu í samskipum milli sveitarfélaga á suðurfjörðunum. 

„Það er veigamikið að koma þessu sambandi á og vera með góðan veg til að geta sinnt því. Vegagerðin leggur mikla áherslu á að koma verkefninu áfram svo því ljúki á áætluðum tíma,“ segir Sigurþór.  

Framkvæmdum við um 14 kílómetra kafla er lokið og um 12,6 km er kafli eftir. „Þetta er stórt verkefni en ég hef trú á að það skapi tekjur fyrir samfélagið að fá betri veg. Draumurinn er að geta lokið þessu árið 2025,“ segir Sigurþór.

Í myndbandinu er einnig rætt við Eggert Stefánsson, sem er mikill áhugamaður um samgöngubætur. Hann segir að nýr vegur muni breyta miklu í samskiptum fólks á Vestfjörðum. „Um leið og samgöngubætur verða eykst umferðin á milli staða, enda þægilegra að ferðast á góðum vegi,“ segir Eggert en núverandi vegur var opnaður 1959. 

Þá er viðtal við Bjarna Laxdal, verkstjóra hjá ÍAV, en þar kemur fram að betri vegur um Dynjandisheiði sé  búinn að vera draumur margra Vestfirðinga lengi. „Það er gaman að sjá hann raungerast,“ segir Bjarni, sem lýsir því að talsverð áskorun sé að vinna í um fimm hundruð metra hæð. „Þetta er alvöru vegagerð,“ segir hann. 

https://youtu.be/DDedVMcv_XM
DEILA