Ekki gleyma þeim þótt þau gleymi þér

Föstudaginn 20. janúar mun Ingibjörg Rósa Björnsdóttir flytja erindið „Ekki gleyma þeim þótt þau gleymi þér“ í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða.

Heilabilun er því miður næsti heilbrigðisfaraldur heimsins og því þarf allt samfélagið að vera reiðubúið að taka tillit til, umgangast og hlúa að þessum hópi.

Mörgum þykir heilabilun óþægilegt umræðuefni, forðast það og vita því ekki hvernig best er að bregðast við þegar sjúkdómurinn kemur upp í sínum nánasta hring.

Ingibjörg Rósa er Heilavinur sem segist hafa skipt um skoðun á gildi þess að lifa með heilabilun, eftir að hafa starfað í dagþjálfun fyrir heilabilaða. Hún á einnig móður með heilabilun, hefur ritað greinar til að vekja athygli á hvernig umönnun heilabilaðra er háttað og brennur fyrir málefninu. Hún vill auka umræðu um aðbúnað og umönnun heilabilaðra og hjálpa fólki að losna við feimni gagnvart heilabiluðum.

Í Vísindaporti mun Ingibjörg deila sinni reynslu og fræða fólk um Heilavini og Alzheimersamtökin.Ingibjörg Rósa er menntuð í blaða- og fréttamennsku og hefur starfað á Morgunblaðinu og fréttastofu RÚV og skrifað fyrir ýmsa miðla, bæði erlenda og íslenska, sem sjálfstætt starfandi blaðamaður meðan hún var búsett í Bretlandi. Þá starfaði Ingibjörg á hjúkrunarheimili fyrir aldraða á námsárunum og tók þátt í umönnun bæði systur sinnar og föður, sem bæði létust úr heilasjúkdómum.

Árið 2021 flutti Ingibjörg heim til móður sinnar og fékk hlutastarf í Maríuhúsi, einni af dagþjálfunum sem Alzheimersamtökin reka, þar sem móðir hennar var jafnframt skjólstæðingur.

Nýlega tók hún tímabundið við hálfu starfi sem Markaðs- og vefstjóri Háskólaseturs Vestfjarða, þar sem móðir hennar er flutt á hjúkrunarheimili í Reykjavík.

Vísindaportið er opið öllum og hefst stundvíslega klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða á 2. hæð. Erindið fer fram á íslensku.

DEILA