Átaksverkefni vegna brottkasts

Að beiðni Fiskistofu hefur Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, samþykkt styrk til að gera kerfisbundið mat á brottkasti á Íslandsmiðum.

Hlutverk Fiskistofu er meðal annars að gæta að ábyrgri nýtingu sjávarauðlindarinnar.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), hefur gagnrýnt að takmörkuð gögn liggi fyrir um hversu miklum afla sé hent á Íslandsmiðum.

Stofnunin áætlar að brottkast hafi verið 10,8% af alheimsafla árin 2010 til 2014. Fiskistofa og Hafrannsóknastofnun hafa átt í samstarfi um sýnatökur vegna stærðartengds brottkasts síðan árið 2001 og benda niðurstöður til að brottkast sé um 3-5%.

Helstu markmið verkefnisins eru að áætla raunverulegt brottkast á Íslandsmiðum. Einnig að þróa aðferðafræði til að meta umfang brottkasts á íslenskum fiskimiðum og safna upplýsingum um umfang eftir veiðarfærum, svæðum og tegundum og meta áhrif brottkasts á stofnstærðir.

Jafnframt er leitast við að öðlast skýrari sýn á umgengni við auðlindina og nýta þekkinguna til að fræða og draga úr brottkasti.

DEILA