Tafir á pöntunarakstri á milli Flateyrar og Ísafjarðar

Eins og fólki kann að vera kunnugt stóð til að hefja pöntunarakstur á milli Flateyri og Ísafjarðar þann 1. janúar 2023, svo kallað verkefni A10-Flateyri um almenningssamgöngur.

Nú hefur komið í ljós að verkefnið frestast lítilega vegna vinnu við rafræna lausn fyrir verkefnið. Gert er ráð fyrir að það hefjist á fyrstu vikum ársins og verður ný upphafsdagsetning auglýst sérstaklega.

Haustið 2020 úthlutaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í fyrsta skipti styrkjum úr samkeppnissjóði til verkefna á sviði almenningssamgangna, sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2024 (aðgerð A.10 Almenningssamgöngur um land allt).

Þar fékk Vestfjarðastofa tvo styrki vegna verkefna sem tengjast almenningssamgöngum á Flateyri með beinum hætti.

Annars vegar fékk verkefnið Efling þjónustu og atvinnusóknar á norðanverðum Vestfjörðum styrk að upphæð 10,6 millj. kr.

Verkefnið gengur út á að efla almenningssamgöngur til og frá Flateyri með það að markmiði að bæta þjónustu við íbúa á Flateyri en horfa jafnframt til samlegðaráhrifa fyrir nágrannabyggðarlögin Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.

Hins vegar var það verkefnið Sambíllinn þar sem veittur var 3 millj. kr. styrkur til að greina möguleika þess að efla almenningssamgöngur með því að nýta þjónustu sem þegar er í boði, svo sem skólaakstur og þjónustuakstur.

DEILA