Sjókvíaeldi Fjarðareldis í Skutulsfirði ekki háð mati á umhverfisáhrifum

Fjarðareldi hefur óskað eftir að skipta um tegund í eldi í Skutulsfirði, hætta við eldi á þorski og hefja eldi á laxi.

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að fyrirhugað breyting á sjókvíaeldi Fjarðareldis í Skutulsfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000.

Í ákvörðun skipulagsstofnunar segir að á grundvelli fyrirliggjandi gagna sé það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Samkvæmt 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum má kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til 1. febrúar 2023.

Fjarðareldi ehf. sem áformar eldi á laxi í Skutulsfirði er í eigu Hábrúnar ehf. sem er með leyfi fyrir 700 tonna sjókvíaeldi í Skutulsfirði. Hábrún hefur stundað eldi á þorski og regnbogasilungi í sjókvíum í Skutulsfirði síðan 2002.

DEILA