Síðasti samningurinn um gagnkvæm fiskveiðiréttindi – Fyrirkomulagi breytt

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Árni Skaale sjávarútvegsráðherra Færeyja undirrituðu nýlega 46. og síðasta samninginn milli ríkjanna um gagnkvæm fiskveiðiréttindi.

Frá árinu 1976 hafa verið gerðir skriflegir samningar um fiskveiðisamstarf Íslands og Færeyja sem hafa verið undirritaðir af ráðherrum og lagðir fyrir Alþingi og Lögþing Færeyja.

Í október sl. undirrituðu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra Íslands og Jenis af Rana, þáverandi ráðherra mennta- og utanríkismála Færeyja, rammasamning um fiskveiðar milli eyríkjanna. Samningurinn mun taka gildi eftir samþykkt Alþingis og Lögþingsins.

Þegar samningurinn hefur tekið gildi verður ferlið einfaldað með tilfærslu af hinu pólitíska sviði yfir á svið embættismanna. Framvegis munu samninganefndir ríkjanna semja um fiskveiðiréttindi og önnur atriði þeim tengd.

Undirbúningur að rammasamningnum hefur staðið yfir í nokkur ár. Áfram er lögð áhersla á náið samstarf ríkjanna í fiskveiðimálum og unnið að sameiginlegri sýn um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda. Stefnt er að því að samninganefndir ríkjanna eigi samráðsfund a.m.k. árlega.

DEILA