Olíunotkun í sjávarútvegi hefur dregist saman

Olíunotkun í sjávarútvegi hefur dregist verulega saman á undanförnum áratugum.

Síðasta áratug var hún til dæmis helmingi minni en að jafnaði á tíunda áratug 20. aldar.

Það eru margir samverkandi þættir sem leggjast á eitt og skýra þessa þróun sem rekja má með einum eða öðrum hætti til fiskveiðistjórnunarkerfisins. Ber hér fyrst að nefna fjárfestingu sjávarútvegsfyrirtækja í nýjum skipum sem búa yfir nýrri tækni og eru sparneytnari en þau sem eldri eru. Eins hafa framfarir í veiðum, betra skipalag veiða og fækkun skipa með sameiningu fyrirtækja dregið úr olíunotkun. Þá hafa miklar fjárfestingar átt sér stað í fiskimjölsverksmiðjum þar sem raforka hefur komið í stað olíu, og af þessum sökum hefur dregið mjög úr olíunotkun þar.

Vitaskuld sveiflast olíunotkun á milli ára vegna breytinga á framleiðslu, það er í veiðum og vinnslu, en leitnin er þó klárlega niður á við. Til að mynda var olíunotkun í sjávarútvegi meiri á árinu 2018 en 2017 en þann samdrátt má einna helst rekja til sjómannaverkfallsins í ársbyrjun 2017. Voru ónýttar veiðiheimildir þar með töluvert meiri við árslok 2017 en fyrri ár, sem hafði sín áhrif á árið 2018.

Loðnubrestur áranna 2019 og 2020 setti, eðlilega, sitt mark á framleiðsluna og þar með olíunotkun í sjávarútvegi.

Heimild: Orkustofnun og Félag íslenskra fiskimjölsframleiðenda

DEILA