Ný lög um úrgangsmál á Íslandi taka gildi þann 1. janúar 2023.

Hér má sjá ruslahaug af biluðum raftækjum.

Markmið lagabreytinganna er að draga úr myndun úrgangs og stuðla að myndun endurvinnslusamfélags hér á landi. Við þurfum að tileinka okkur nýtt viðhorf ef við viljum byggja upp íslenskt hringrásarhagkerfi og hugsa um úrganginn okkar sem auðlind sem við getum endurunnið aftur og aftur, en ekki efni til urðunar.  Sama flokkunarkerfi mun gilda um allt land og verður skylt að flokka úrgang í a.m.k. sjö flokka sem eru pappír, plast, lífúrgangur, textíll, málmar, gler og spilliefni.

Við heimili verður safnað pappír, plasti og lífúrgangi.

Áfram verður blönduðum úrgangi safnað við heimili þar sem ýmislegt endar þar sem á ekki heima í sérsöfnuðum úrgangi, s.s. tyggjó, einnota bleyjur og ryksugupokar.

Textíl, málmum, gleri og spilliefnum skal safnað með öðrum hætti, til dæmis á grenndarstöðvum, með sérstökum söfnunardögum eða öðrum átaksverkefnum. Bæta skal sérstaklega söfnun spilliefna og raftækja. Sveitarfélögum ber að útfæra söfnunina á þessum úrgangsflokkum í samþykkt um meðhöndlun úrgangs.

Bannað verður að urða eða brenna sérsöfnuðum úrgangi enda er markmiðið að koma honum til endurnýtingar eða endurvinnslu.

Sömu merkingar verða notaðar fyrir tunnur og ílát um allt land sem á að einfalda flokkun og gera hana skilvirkari.

Lögin munu taka gildi um áramótin en innleiðing breytinganna og aðlögun að þeim mun standa yfir allt árið 2023.

DEILA