Ný bók um byggðafestu og búferlaflutninga

Búseta mótar líf fólks með margvíslegum hætti og skilyrðir dagleg samskipti við fjölskyldu, vini og nágranna, möguleika til náms og starfa og þá þjónustu og afþreyingu sem völ er á.

Fyrir hvern og einn skiptir höfuðmáli að geta valið sér búsetu í samræmi við langanir sínar og þarfir en byggðafesta og búferlaflutningar hafa einnig djúpstæð áhrif á einstök samfélög.

Á 20. öld beindist athyglin einkum að búferlaflutningum úr sveitum landsins og hröðum vexti höfuðborgarsvæðisins í umbyltingu atvinnuhátta, lífskjara og menningar á Íslandi.

Á fyrstu tveimur áratugum 21. aldar hafa hins vegar orðið miklar breytingar á byggðafestu og búferlaflutningum hér á landi. Innflytjendum hefur fjölgað mikið í öllum landshlutum, stærri byggðakjarnar á Suðvesturlandi hafa vaxið hraðar en höfuðborgarsvæðið, búferlaflutningar til höfuðborgarsvæðisins frá fjarlægari landshlutum hafa farið minnkandi og rúmlega aldarlöng fólksfækkun í sveitum hefur stöðvast.

Í þessu riti birtast fyrstu niðurstöður rannsóknarverkefnisins Byggðafesta og búferlaflutningar sem unnið var á vegum Byggðastofnunar og stýrt af Þóroddi Bjarnasyni, rannsóknaprófessor í byggðafræði við Háskólann á Akureyri, í samvinnu við sérfræðinga við ýmsar íslenskar og erlendar háskólastofnanir. Veitt er yfirlit um svæðisbundna mannfjöldaþróun á Íslandi og mynstur búferlaflutninga innan lands og utan. Leitað er skýringa á langtímaþróun byggðarlaga og landsvæða og ljósi varpað á þá þætti sem áhrif hafa á ákvarðanir einstaklinga um að flytja á brott, vera um kyrrt eða snúa aftur heim, jafnframt því sem mat er lagt á framtíðarhorfur í búferlaflutningum og byggðaþróun.

DEILA