Hurðaskreytingar, kakó, piparkökur og eldspúandi starfsmenn

Nemendur og starfsmenn Grunnskólans á Ísafirði hafa verið duglegir að vanda við að skreyta hurðir undanfarna daga, líkt og undanfarin ár. Fjölbreytnin er mikil og virkilega gaman að sjá mismunandi útgáfur. 

Þá er í skólanum haldið í þá skemmtilegu hefð í heimilisfræðivali á unglingastigi að baka og skreyta piparkökuhús. Húsin voru ákaflega falleg þetta árið og fjölbreytnin heilmikil. Það mátti sjá gleði og stolt í andlitum nemenda þegar þeir fóru heim með afraksturinn í síðustu viku.

 

Þá var í morgun var boðið upp á kakó og piparkökur úti í porti í frímínútunum. Þetta mæltist vel fyrir líkt og undanfarin ár og kom sér vel í frostinu. Kristján Arnar Ingason, skólastjóri og Harpa Henrysdóttir, kennari, toppuðu svo útiveruna með því að spúa eldi, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Margar myndir aðrar af hurðum og piparkökuhúsum má sjá á heimasíðu skólans.

DEILA