HEIMILIN GREIÐA MEIRIHLUTA UMHVERFISSKATTA Á ÍSLANDI

Skatttekjur og tryggingagjöld hins opinbera námu samtals 1.139.776 milljónum króna á árinu 2021 og þar af voru umhverfisskattar 55.244 milljónir (4,8 %) en Hagstofan birtir nú í fyrsta sinn gögn um umhverfisskatta á Íslandi.

Þegar hlutfall heimila af heildarumhverfisskattbyrði er skoðað sést að á Íslandi greiddu heimilin 59% allra umhverfisskatta árið 2020 sem er með því hæsta sem gerist í Evrópu.

Samkvæmt skilgreiningu Eurostat er skattur flokkaður sem umhverfisskattur ef það sem skattlagt er hefur sannarlega neikvæð áhrif á umhverfið.

Umhverfissköttum er skipt í fjóra flokka; orkuskatta, flutningsskatta, mengunarskatta og auðlindaskatta.

Orkuskattar eru skattar sem tengjast framleiðslu og notkun orku í ýmsum myndum. Skattar á bensín, olíu og aðra orkugjafa fyrir samgöngur teljast hér með og sömuleiðis skattar sem tengjast losun gróðurhúsalofttegunda. Tekjur ríkisins af sölu á losunarkvóta innan viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir teljast einnig orkuskattur. Skattar á framleiðslu og notkun orku teljast orkuskattar hvort sem framleiðslan byggir á endurnýjanlegum auðlindum eða ekki.

Flutningsskattar eru skattar sem tengjast því að eiga og nota farartæki (undantekning eru skattar á eldsneyti). Mengunarskattar eru skattar á losun mengandi efna (þó ekki gróðurhúsalofttegunda). Til mengunarskatta teljast líka skattar á söfnun, meðhöndlun og förgun úrgangs.

Auðlindaskattar eru skattar tengdir veiðum, breytingum á landslagi og vinnslu jarðefna og annarra hráefna úr umhverfinu. Þó að virðisaukaskattur sé lagður á marga vöruflokka sem umhverfisskattar tengjast telst virðisaukaskattur aldrei umhverfisskattur.

Á Íslandi vega orkuskattar mest og auðlindaskattar lang minnst.

Á Íslandi voru skattar á eldsneyti 46% allra umhverfisskatta árið 2021 og aðrir skattar sem tengjast bifreiðaeign og notkun á vegum vega sömuleiðis þungt.

Veiðigjald fyrir veiðiheimildir telst ekki auðlindaskattur heldur eignatekjur sem eigendur fiskiskipa greiða ríkinu. 

DEILA