Hafrannsóknastofnun – Stofnvísitala þorsks og ýsu hækkar

Hafrannsóknastofnun hefur tekið saman helstu niðurstöður stofnmælingar botnfiska að haustlagi en leiðangurinn fór fram dagana 1.-27. október 2022. Verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti ár hvert frá 1996.

Stofnvísitala þorsks hækkar í ár eftir töluverða lækkun árin 2018-2021. Hækkunina má rekja til þess að vísitala 80 cm og stærri þorsks var yfir meðaltali rannsóknartímabilsins.

Stofnvísitala ýsu er með þeim hæstu síðan mælingar hófust og sama á við um vísitölu gulllax sem er sú hæsta sem mælst hefur í haustralli. Hins vegar eru vísitölur ufsa, grálúðu og blálöngu lágar eins og undangengin ár. Vísitala gullkarfa hefur lækkað töluvert frá hámarkinu árið 2017, en er svipuð í ár og undanfarin tvö ár. Vísitala djúpkarfa hefur haldist svipuð í um tuttugu ár. Vísitölur hlýra, hrognkelsis, sandkola, skrápflúru, slétthala og tindaskötu eru í sögulegu lágmarki. Vísitölur flestra brjóskfiska lækkuðu eða stóðu í stað frá fyrra ári og vísitölur flestra annarra djúpfiskategunda voru undir langtímameðaltali.

Árgangar þorsks frá 2021 og 2022 mældust undir meðalstærð í fjölda. Meðalþyngd flestra árganga þorsks, fyrir utan eins og tveggja ára, mældist um eða yfir meðaltali áranna 1996-2022. Árgangur ýsu frá 2022 mældist undir meðalstærð í fjölda en árgangur 2021 yfir. Nýliðun gullkarfa og djúpkarfa hefur verið léleg undanfarin ár en vísbendingar eru um bætta nýliðun í stofnum grálúðu og blálöngu.

DEILA