Galdrabrugg frá Hólmavík

Fyrsti bjórinn úr nýju brugghúsi kominn á markaðinn

Galdur brugghús á Hólmavík töfraði fram bjór í fyrsta sinn nú fyrir jólin. Um er að ræða þrjá nýjar bjórtegundir: Galdr, Kukl og Vetur. 

Galdur er nýjasta brugghúsið í fjölbreyttri flóru bjórframleiðenda hér á landi. Galdur sker sig þó úr að mörgu leyti en það má segja að nýjasta brugghús Íslendinga sé í samfélagseigu. Galdur er samstarf frumkvöðla, íbúa á svæðinu og helstu fyrirtækja á Hólmavík. Auk þess þykir framleiðslan vera umlukin kröftugum göldrum enda eru Strandir þekktar fyrir sögur af galdramönnum. Galdr er ljós lager, Kukl er „classic“ lager og Vetur lagerbjór með jólaívafi. Ásamt því að vera einstaklega bragðgóður bjór þá hefur mikið verið lagt upp úr glæsilegri hönnun umbúða sem heimamaðurinn Ólafur Númason á heiðurinn af. 

Það voru heimamennirnir Finnur Ólafsson og Aleksandar Kuzmanic sem áttu hugmyndina að brugghúsinu og hafa átt veg og vanda af uppbyggingu þess. Með stofnun brugghússins vildu þeir styrkja svæðið með atvinnusköpun og fleiri afþreyingarmöguleikum. Ráðinn var til Galdurs Philipp Ewers sem er menntaður bruggmeistari frá Þýskalandi og hefur unnið hérlendis í áratug.

Til að fyrirtæki eins og Galdur Brugghús nái að blómstra og vera samfélaginu til góðs er mikilvægt að hafa heimamenn og helstu stofnanir með í uppbyggingunni. Því var heimafólki boðið að verða hluthafar og margir samstarfsaðilar koma úr fyrirtækjum á Hólmavík, ásamt því sem nýttir voru styrkir úr byggðarþróunarverkefninu Sterkum Ströndum árið 2021 til gerðar viðskiptaáætlunar og tækjakaupa. 


Viðtökur hafa verið framar vonum og hafa starfsmenn ekki haft undan að græja umbúðir á flöskur til að koma í hendurnar á viðskiptavinum. Hægt er að nálgast vörur Galdurs Brugghúss á framleiðslustað á Hólmavík í Norðurfjöru og áhugasömum beint á að hafa samband í síma 788-4030 fyrir frekari upplýsingar eða að senda tölvupóst á galdur@galdrabrugghus.is

DEILA