Frétta- og upplýsingavefurinn strandir.is hættir um áramótin

Strandabyggð hefur verið með þjónustusamning við Sýslið verkstöð ehf. sl. 2 ár um upplýsingamiðlun fyrir sveitarfélagið, en hefur nú ákveðið að endurnýja ekki samninginn og hyggst standa sjálft fyrir upplýsingamiðlun á vef sveitarfélagsins sem til stendur að endurbæta.

Þetta var samþykkt í sveitarstjórn þann 8. nóvember með með þremur atkvæðum T-lista á móti tveimur atkvæðum A-lista.

Núverandi samningur við Strandabyggð hljóðar upp á 200 þ. krónur á mánuði fyrir upplýsingamiðstöð í formi rafrænnar upplýsingaveitu.

Ásta Þórisdóttir hjá Sýslinu segir að þetta séu vissulega vonbrigði, enda búið að eyða bæði miklum tíma og fjármunum í þennan vef, en 8,7 milljón króna styrkur fékkst í verkefnið úr Öndvegissjóði Brothættra byggða árið 2019. Var sú fjárhæð notuð í að setja upp vefinn í samvinnu við auglýsingastofu.

DEILA