Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur sameinuð – Starfsmönnum fjölgar á Ísafirði

Fyrirhugað er að sameina Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur þannig að öll þjónusta sem snýr að innflytjendum, flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd verði á hendi einnar stofnunar hér á landi.

Fyrirhugaðri sameiningu Vinnumálastofnunar og Fjölmenningarseturs er ætlað að ná fram samlegðaráhrifum milli stofnana til að innflytjendur, flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd geti leitað á einn stað vegna þeirrar umfangsmiklu þjónustu sem ráðuneytinu og stofnunum þess er ætlað að veita.

Hjá Vinnumálastofnun eru um það bil 190 fastráðnir starfsmenn. Stofnunin starfrækir átta þjónustuskrifstofur um land allt auk þess sem Fæðingarorlofssjóður er staðsettur á Hvammstanga og Greiðslustofa atvinnuleysistrygginga á Skagaströnd.

Hjá Fjölmenningarsetri eru tæplega 10 stöðugildi fastráðinna starfsmanna. Aðalskrifstofa stofnunarinnar er á Ísafirði, en þar eru 2 stöðugildi. Sömuleiðis eru tveir starfsmenn á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Ísafirði. Gert er ráð fyrir að stöðugildum á Ísafirði verði fjölgað í sameinaðri stofnun, með tilkomu nýrra verkefna.

DEILA