Útflutningsverðmæti sjávarafurða í hæstu hæðum

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam tæplega 30 milljörðum króna í október. Það er um 12% aukning í krónum talið frá sama mánuði í fyrra, en um 17% sé leiðrétt fyrir gengisbreytingu krónunnar.

Á fyrstu 10 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða þar með komið í tæpa 288 milljarða króna. Það er um 18% aukning í krónum talið frá sama tímabili í fyrra, en um 23% í erlendi mynt. Útflutningsverðmæti sjávarafurða hafa ekki verið meiri á fyrstu 10 mánuðum ársins á þessari öld.

Af einstaka vinnsluflokkum má rekja ofangreinda aukningu í útflutningsverðmæti sjávarafurða á fyrstu 10 mánuðum ársins til fiskimjöls og svo lýsis.

Útflutningsverðmæti fiskimjöls er komið í tæpa 34 milljarða króna, sem er ríflega þrefalt meira en verðmæti þess var á sama tímabili í fyrra á föstu gengi.

Útflutningsverðmæti lýsis er komið í rúma 25 milljarða króna, sem er 160% aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Eins munar talsvert um þá aukningu sem orðið hefur á frystum flökum. Nemur útflutningsverðmæti þeirra um 69 milljörðum króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem er 21% aukning á milli ára.

Af þeim vinnsluflokkum sem birtir eru í bráðabirgðatölunum er í raun eingöngu samdráttur í heilfrystum fiski á milli ára.

Hækkun afurðaverðs kemur einnig við sögu, en styrking á gengi krónunnar vegur aðeins á móti. Sé litið á botn- og flatfiskafurðir má sjá að aukninguna í útflutningsverðmætum má alfarið rekja til hækkunar á afurðaverði, enda hefur útflutt magn dregist saman samhliða samdrætti í afla.

DEILA