Umsvif í fiskeldi aukast stöðugt

Áhrif aukinna umsvifa í fiskeldi hér á landi er ekki aðeins að merkja í útflutningstölum, heldur sjást þau einnig greinilega í tölum af vinnumarkaði.

Þannig hafa aldrei fleiri starfað við fiskeldi hér á landi og nú í ár og að sama skapi hafa atvinnutekjur í greininni aldrei verið meiri.

Þetta má sjá í tölum um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur sem Hagstofan birtir mánaðarlega, en nýjustu tölur þess efnis ná til september í ár.

Að jafnaði fengu um 670 einstaklingar greiddar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi á mánuði hverjum á fyrstu 9 mánuðum ársins samanborið við um 590 manns á sama tímabili í fyrra.

Jafngildir það fjölgun upp á tæp 15% á milli ára. Hið sama er upp á teningnum varðandi atvinnutekjur í greininni, það er samanlagðar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur allra launþega innan greinarinnar.

Á fyrstu 9 mánuðum ársins námu atvinnutekjur í fiskeldi tæplega 4,8 milljörðum króna. Það er um 25% aukning að nafnvirði á milli ára, en um 16% að raunvirði.

DEILA