Þjóðkirkjan ræktar skóg

Þjóðkirkjan hefur bæst í hóp þeirra sem taka höndum saman varðandi endurheimt skóglendis á Íslandi.

Hreinn Óskarsson, fulltrúi Skógræktarinnar, afhenti biskupi Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, fjölda birkifræja til sáningar.

Athöfnin fór fram í barnamessu í Bústaðakirkju um miðjan október. Birkifræin koma úr landssöfnun Skógræktarinnar.

Þeim verður dreift til allra skírnarbarna næstu árin með kveðju frá Skírnarskóginum. Á hverju ári eru nokkur þúsund barna borin til skírnar og má því gera ráð fyrir að Skírnarskógurinn vaxi og dafni með sáningu fjölda birkifræja um allt land.

„Hvert barn sem skírt er, fær afhent fallegt kort frá Skírnarskóginum en hvert kort inniheldur u.þ.b. þúsund birkifræ,“ sagði Agnes.

„Við höfum í hyggju að eiga í nánara samstarfi við Skógræktina í framtíðinni,“ bætti hún við. „Við hyggjumst setja af stað verkefni næsta haust þar sem við fáum fermingarbörn um allt land til þess að safna birkifræjum. Þannig getum við skilað Skógræktinni aftur þeim fræjum sem við fengum frá þeim.“

DEILA