Samgöngustofa leiðréttir fréttir um björgunarskip

Kobbi Láka í Bolungarvíkurhöfn.

Samgöngustofa hefur séð ástæðu til að leiðrétta fréttir af stöðu tveggja björgunarskipa, annars vegar á Vestfjörðum og hins vegar á Austfjörðum.

Samgöngustofa segir að í þessum fréttum hafi því verið haldið fram að Samgöngustofa standi í vegi fyrir því að skipin komist í eðlilega starfsemi sem björgunarskip.

Síðan segir: „Árið 2007 var gefin út reglugerð nr. 1120/2007 um björgunarbáta sem gerðir eru út frá landi. Í reglugerðinni, sem m.a. er byggð á breskum kröfum, eru ýmsar kröfur til búnaðar björgunarbáta og eiginleika þeirra, til að tryggja sem best öryggi áhafna þeirra og farþega. Reglugerð þessi var sett að frumkvæði björgunarsveita landsins, sem þótti nauðsynlegt að setja niður samræmdar kröfur til björgunarskipa. Meðal krafna reglugerðarinnar er krafan um að skipið skuli geta rétt sig af, hvolfi því.

Nú er verið að smíða 13 fullkomin björgunarskip fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörgu í Finnlandi og uppfylla þau öll kröfur reglugerðarinnar.

Annað björgunarskipanna sem hefur verið til umfjöllunar var keypti síðastliðið sumar frá Noregi, smíðað árið 2002. Skipið kom til landsins þann 18. júlí síðastliðinn og var þá hafist handa við að koma skipinu á íslenska skipaskrá. Eins og venjan er skoðuðu starfsmenn Samgöngustofu gögn um skipið og gerðu á því upphafsskoðun. Í ljós kom að skipið uppfyllir ekki íslenskar öryggiskröfur um að vera sjálfréttandi. Þó er talið að tæknilega sé hægt að leysa það mál þannig að skipið uppfylli kröfur reglugerðarinnar. Á þeim grundvelli fékk skipið haffæri til sex mánaða, á meðan leitað væri tæknilegra lausna.

Í hinu tilfellinu lét björgunarsveit smíða fyrir sig nýtt björgunarskip, í staðinn fyrir eldra skip sem selt var frá sveitinni í maí 2021. Skip þetta kom til landsins í byrjun nóvember og birtist þá tilkynning frá björgunarsveitinni að skipið væri ekki útkallsfært þar sem það hefði ekki fengið útgefið haffæri frá Samgöngustofu. Varð úr þessu nokkur fréttamatur og um kennt að nafngreindur starfsmaður Samgöngustofu væri í fríi. Staðreyndin er hins vegar sú að öll vinna tekur tíma, þar með talin vinna við útgáfu haffærisskírteinis skipa en öll gögn um öryggi skipsins þurfa að liggja fyrir áður en haffærisskírteini er gefið út.“

DEILA