Mygla í Grunnskólanum á Hólmavík

Á vefsíðu Strandabyggðar er sagt frá því að veruleg mygla hafi greinst i grunnskólanum. 

Niðurstöður sýnatöku og greiningar verkfræðistofunnar EFLU lágu fyrir seint í gær.  Ljóst er að þessi staða mun hafa veruleg áhrif á skólahald og allt samfélagið. 

Sveitarstjórn hefur hist á fundi ásamt starfsfólki sveitarfélagsins, til að meta stöðuna og móta næstu skref. 

Þessi vandi er þekktur víða um land, og því er til talsverð fagþekking varðandi viðbrögð við svona ástandi.

Næstu skref eru því eftirfarandi:

  • Starfsmönnum grunnskóla hefur verið gerð grein fyrir stöðu mála
  • Foreldrar hafa fengið tilkynningu um stöðuna
  • Skólahald fellur niður frá og með kl 12:00 í dag 30.11 og eru foreldrar og forráðamenn beðnir að gera ráðstafanir til að sækja sín börn.  Séu einhverjir í vanda eftir þann tíma, munum við að sjálfsögðu sjá um börnin og hafa ofan af fyrir þeim
  • Ekkert skólahald verður á morgun né á föstudag.  Stefnt er að því að skólahald hefjist að nýju á mánudag, þó fyrirkomulag kennslu verði með talsvert breyttu sniði.  Nánar verður greint frá því fyrirkomulagi fyrir helgina
  • Jólatónleikar eru áfram fyrirhugaðir á morgun en þeir fara fram í Hólmavíkurkirkju.
  • Búð er að stofna aðgerðarhóp sem heldur utan um aðgerðir dag frá degi. Eins verður stofnaður vinnuhópur í grunnskólanum sem mun móta breytt skóladagatal og undirbúa kennslu
  • Boðað verður til íbúafundar á næstunni.
DEILA