Ísafjarðarbær: Verndarsvæði í byggð samþykkt

Frá Ísafirði.

Bæjarstjórn hefur samþykkt tillögu að verndarsvæði í byggð á Ísafirði en tillaga og greinargerð um málið var lögð fram til samþykktar á 502. fundi bæjarstjórnar þann 17. nóvember.

Svæðið sem lagt er til að verði gert að verndarsvæði í byggð er á Skutulsfjarðareyri í þéttbýli Ísafjarðar. Afmörkun þess nær annars vegar til innri hluta byggðarinnar á Eyrinni og hinsvegar til svæðisins sem umkringir Neðstakaupstað á Suðurtanga. Afmörkun verndarsvæðisins miðast við lóðarmörk. Svæðinu má einnig skipta gróflega í þrennt eftir gömlu verslunarstöðunum sem þau tengjast; Neðstakaupstað, Miðkaupstað og Hæstakaupstað.

Svæðin sem tillagan nær yfir.

Í greinargerðinni kemur fram að helstu rök fyrir varðveislugildi byggðarinnar eru eftirfarandi:

  • Byggðin á Eyrinni sem hefur varðveist er dýrmætur fjársjóður fyrir Ísfirðinga og hefur einnig ótvírætt sögulegt gildi á landsvísu.
  • Kaupstaðirnir þrír, þar sem húsaþyrpingar, almenningsrými og söguleiðin á milli þeirra hefur varðveist, hafa mikið menningarsögulegt gildi.
  • Svipmót byggðar í bæjarrýmum skapar fallega heild og notalegt umhverfi sem endurspeglar bæi fyrri tíma.
  • Á svæðinu má finna margar samstæðar heildir byggingarstíla sem segja sögu þéttbýlismyndunar á Íslandi. 

Í greinargerðinni segir enn fremur: 

Sú tillaga að gera gömlu byggðina á Skutulsfjarðareyri að verndarsvæði í byggð á grunni laga þar um og tilheyrandi greinargerð sem hér er sett fram, er í senn árétting á því sem þegar gildir um svæðið og staðfesting á mikilvægi þess á svæðis- og landsvísu.

Segja má að byggðin sé nú þegar verndarsvæði ef litið er til þess hve vel hefur tekist að standa vörð um húsin og miðað við þau ákvæði sem gilda um byggðina samkvæmt lögum um menningarminjar og hverfisvernd í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020.

Engu að síður þykir ástæða til að skilgreina svæðið sem verndarsvæði í byggð til að festa vernd þess enn frekar í sessi til framtíðar. Þá er markmið tillögunnar að skýra sérstöðu byggðarinnar þegar kemur að varðveislugildi hennar og marka stefnu um framtíðarþróun. Þannig megi áfram vinna markvisst að verndun svipmóts byggðarinnar um leið og fræðslugildi svæðisins er aukið og lifandi byggð er viðhaldið

DEILA