Innflytjendur 16,3% íbúa landsins

Innflytjendur á Íslandi voru 61.148 eða 16,3% mannfjöldans þann 1. janúar 2022 sakvæmt upplýsingum frá Hafgstofu Íslands.

Innflytjendum heldur áfram að fjölga og voru þeir 15,5% landsmanna (57.126) í fyrra. Frá árinu 2012 hefur hlutfallið farið úr 8,0% mannfjöldans upp í 16,3%. Innflytjendum af annarri kynslóð fjölgaði einnig á milli ára, voru 6.117 í byrjun árs 2021 en 6.575 1. janúar síðastliðinn. Samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 18% af mannfjöldanum og hafði það hlutfall aldrei verið hærra. Einstaklingum með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum, fjölgaði einnig lítillega á milli ára og voru 7,2% mannfjöldans.

Eins og síðustu ár reyndust Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Innflytjendur frá Póllandi voru 20.896 eða 34,2% allra innflytjenda þann 1. janúar síðastliðinn.

Hlutfall innflytjenda af mannfjölda var mest á Suðurnesjum en þar voru 28% innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð. Næsthæst var hlutfallið á Vestfjörðum þar sem 22,3% mannfjöldans voru innflytjendur og börn þeirra. 

Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra, afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis. Innflytjendur af annarri kynslóð eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent. Einstaklingur sem fæddist erlendis en á foreldra sem báðir eru fæddir hér á landi telst einnig hafa erlendan bakgrunn.

DEILA