Hólmfríður Vala – „Dagur á Grænlandi“

Föstudaginn 18. nóvember verður Hólmfríður Vala Svavarsdóttir með erindið „Dagur á Grænlandi“ í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða.

Hólmfríður Vala mun segja frá stórbrotnu ferðalagi sem hún fór síðastliðið sumar á Grænlandsjökul.

Ferð af þessum toga þarfnast mikils undirbúnings og skipulags og í erindinu fer Vala yfir það hvernig hver dagur var skipulagður, hvernig hann leið og hvaða verkefni þarf að leysa af hendi. Einnig fjallar hún um nauðsynlegan útbúnað, hvað hún borðaði og fl.

Vala mun glæða frásögnina lífi með myndum og myndböndum.

Hólmfríður Vala Svavarsdóttir er fædd og uppalin á Ólafsfirði. Hún er kennari að mennt en hefur starfað við rekstur Hótels Ísafjarðar síðustu ár og einnig við skíðakennslu.

Skíðaíþróttin skipar stóran sess í hennar lífi, hún hefur þjálfað skíðagöngu lengi, bæði fyrir börn og fullorðna og undanfarin ár hefur hún staðið fyrir vel sóttum skíðahelgum í samstarfi við Hótel Ísafjörð þar sem áhersla er á bæði tækniæfingar og skemmtilega leiki.

Hólmfríður Vala er mikil útivistarmanneskja og hefur tekið þátt í mörgum keppnum og viðburðum tengdum útivist og íþróttum.

Vísindaportið er opið öllum og hefst stundvíslega klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða á 2. hæð. Erindið fer fram á íslensku.

DEILA