Hettumáfur

Hettumáfur er algengur votlendisfugl og minnsti máfurinn sem verpur hér á landi. Hann er oftast auðþekktur, ljósari, minni og léttari á flugi en rita og stormmáfur.

Í sumarbúningi er fullorðinn fugl ljósgrár á baki og vængjum en annars hvítur að mestu. Dökkbrún hetta nær niður á háls, vængbroddar eru svartir. Er hettulaus í vetrarbúningi, frá ágúst og fram í mars, með svartar kámur á hlustarþökum.

Nýfleygir ungar eru brúnflikróttir að ofan en lýsast á haustin. Fugl á fyrsta vetri er hvítur á höfði, hálsi og að neðan, vængir brún- og svartflikróttir að ofan, stéljaðar svartur. Fær fullan búning á öðru hausti. Kynin eru eins.

Hettumáfur er ekki eins mikill sjófugl og rita. Hann sést oft við fæðuleit í fjörum, á leirum og við skólpræsi. Stundum eltir hann sláttuvélar eða plóga og hremmir skordýr sem koma í ljós í slægjunni eða plógfarinu. Félagslyndur og fremur spakur.

Hettumáfur er að mestu farfugl. Stærstu byggðirnar eru á Suðurlandi, við sunnanverðan Faxaflóa og um miðbik norðanlands. Hettumáfur nam hér land á 20. öld. Líkt og krían er hann harðfylginn og ver vörp sín gegn óboðnum gestum og sækjast endur og vaðfuglar eftir að verpa innan um hettumáfa. Vetursetufuglar halda til á Suðvestur- og Norðurlandi í höfnum og við þéttbýli, farfuglar fara til Vestur-Evrópu en einnig Norður-Ameríku. Er varpfugl um mestalla Evrópu og austur um norðanverða Asíu.

Varpstöðvar

Af fuglavefur.is

DEILA