Galtarvirkjun komin í gang

Reykhólavefurinn greinir frá því að fyrir rúmri viku hafi vatni verið hleypt á vélar Galtarvirjunar í Garpsdal.

Áður hafði verið hleypt vatni í aðrennslispípuna til að skola óhreinindi úr henni áður en hún var tengd við túrbínuna sem knýr rafal virkjunarinnar.

Undirbúningsvinna við tengingar og stillingar er töluvert mikil við svona virkjun, og það var tæknimaður á vegum framleiðanda vélanna sem kom til landsins og sá um það. Fyrsta vikan eftir að virkjunin var gangsett fór í stillingar og prófanir, en nú er hún búin að ganga stöðugt um 4 sólarhringa og framleiða inn á dreifikerfið.

Ekkert óvænt kom upp í gangsetningarferlinu, að sögn Ásgeirs Mikkaelssonar, annars eiganda Orkuvers ehf sem byggir þessa virkjun.

Þó að virkjunin sé komin í gang þá er heilmikil jarðvegsvinna eftir við að moka ofan í skurðinn sem aðrennslispípan liggur í. Meiningin er að vinna við það í vetur eins og veðurfar leyfir.

Inntaksmannvirki virkjunarinnar
DEILA