Brunamálaskólinn

Ný reglugerð um Brunamálaskólann hefur tekið gildi. Þar kemur fram að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skuli starfrækja Brunamálaskólann.

Í stað skólaráðs skv. eldri reglugerð skipar ráðherra fjögurra manna fagráð, og jafnmarga menn til vara, sem verða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til ráðgjafar um fagleg málefni Brunamálaskólans.

Fagráð mótar áherslur um starfsemi og námsefni skólans, fylgist með þróun og nýjungum á sviði slökkvi- og björgunarstarfa og fylgir eftir innleiðingu á nýju námsefni hjá skólanum. Fagráð staðfestir námskrá skólans og veitir álit í ágreiningsmálum er kunna að koma upp varðandi námið og próf.

Með þessum breytingum er ekki lengur gerð krafa til þess að ráðinn sé sérstakur skólastjóri heldur er rekstur skólans á forræði brunavarnasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem ber ábyrgð á fjármálum og rekstri skólans.

Nám slökkviliðsmanna er ekki lengur aðgreint í atvinnunám og nám fyrir hlutastarfandi en þó er gerður greinarmunur á hvort slökkviliðsmaður sé í aðal- eða aukastarfi. Stefnt verður að samræmdu grunnnámi fyrir slökkviliðsmenn sem tekur mið af lögbundnum verkefnum slökkviliða.

Heimilt verður að útfæra grunnnámið með mismunandi leiðum svo það þjóni bæði slökkviliðsmönnum í aðal- og aukastarfi. Þá verður innleitt  framhaldsnám fyrir einstaklinga sem sinna slökkvi- og björgunarþjónustu í aðalstarfi sem lýtur að aukinni þekkingu og færni til starfa. Brunamálaskólinn mun bjóða upp á nýtt nám fyrir stjórnendur slökkviliða þar sem áherslan verður annars vegar á stjórnun aðgerða og hinsvegar daglega stjórnun í starfsemi slökkviliða. Einnig er skerpt á inntökuskilyrðum í námið almennt.

DEILA