Verðmætaaukning í ufsa

Mikil aukning hefur orðið í útflutningsverðmæti ufsaafurða, sem eru komin í tæpa 14 milljarða króna á fyrstu 8 mánuðum ársins.

Aukningin á milli ára nemur um 57% á föstu gengi. Á sama tíma hefur útflutningur að magni til dregist saman um rúm 8%.

Vissulega hefur afurðaverð á ufsa hækkað á undanförnum mánuðum, en það er þó meira í spilunum en það. Þessa miklu aukningu í verðmætum má að stórum hluta rekja til þess að fullvinnsla á ufsa heima fyrir hefur stóraukist á milli ára. Þannig hefur útflutningur á ferskum ufsaflökum aldrei verið meiri en nú í ár, auk þess sem veruleg aukning er í útflutningi á frystum flökum.

Á síðustu tveimur árum hefur útflutningur á heilum og hauskornum ufsa verið um þriðjungur af útfluttu magni á fyrstu 8 mánuðunum, en nú í ár er hlutfallið 18%.

Þetta eitt og sér leiðir til þess að minna er flutt út að magni til en verðmætasköpun innanlands verður meiri fyrir vikið, með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á þjóðarbúið.

Samfara breytingum í vinnslu verða oft talsverðar breytingar á útflutningi til einstakra viðskiptalanda.

Þar má sjá að útflutningur ufsaafurða til Frakklands hefur stóraukist og eru verðmætin nú þegar orðin mun meiri en þau hafa áður náð á heilu ári.

Aukinn útflutningur til Frakklands kemur heim og saman við þá auknu áherslu á ferskfiskvinnslu á ufsa, en Frakkar eru þekktir fyrir að kunna að njóta góðs matar þar sem gæði, gott hráefni og ferskleiki eru í öndvegi.

Frakkland er jafnframt langstærsta viðskiptalandið með ufsaafurðir í ár og hefur verulegt forskot á önnur lönd sem raða sér í næstu sæti. Í fyrra náði Frakkland í fyrsta sinn að vera stærsta viðskiptalandið með ufsaafurðir. Á árunum 2019 og 2020 var Pólland efst á blaði en fyrir þann tíma var Þýskaland ávallt á toppnum, að minnsta kosti frá aldamótum. 

 

DEILA