Karfan: Vestri og ÍR í tveim spennutryllum

Vestri og ÍR-b mættust í tveimur spennandi leikjum í Jakanum á Ísafirði í 2. deild karla um síðustu helgi.

Í fyrri leiknum sem fram fór á laugardaginn byrjuðu heimamenn mikið betur og leiddu 26-13 eftir fyrsta leikhluta. Gestirnir úr Breiðholti komu þó sterkir til baka í öðrum leikhluta, héldu Vestra í einungis 10 stigum og leiddu 36-43 í hálfleik. Þeir voru svo skrefinu framar í þriðja leikhluta og fóru með 11 stiga forustu inn í lokafjórðunginn, 48-59.

Undir lok fjórða leikhluta hjuggu heimamenn hratt á muninn og þegar 32 sekúndur voru eftir jafnaði Ingimar Baldursson leikinn með þriggja stiga körfu, 80-80.

Lánið var þó með ÍR-ingunum í lokin því eftir að hafa sloppið við að fá dæmdan á sig ruðning í lokasókninni þá endaði hún á galopnu þriggja stiga skoti hjá Jóni Orra sem fór örugglega ofan í þegar rétt um 5 sekúndur voru eftir. Vestri fékk tækifæri á að jafna en ágætt skot Ingimars missti marks og lokastaðan 80-83 fyrir ÍR.

Í seinni leiknum ætluðu ÍR-ingar hreinlega að rúlla yfir heimamenn í fyrri hálfleik. Ísfirðingurinn og fyrrum fyrrum leikmaður Vestra, Helgi Bergsteinsson, fór illa með sitt gamla lið á þessum kafla en hann skoraði 14 af 17 stigum sínum í fyrri hálfleik. ÍR-ingar, sem náðu mest 19 stiga forustu, leiddu 34-49 í hálfleik.

Vandræði heimamanna héldu áfram í byrjun þriðja leikhluta en eftir rúmlega 2 mínútna spil var munurinn kominn í 20 stig, 39-59, fyrir ÍR. Á þessum tímapunkti snérist leikurinn algjörlega heimamönnum í hag og skoruðu þeir 21 stig í röð á næstu 7 mínútunum og tóku forustuna 60-59. Þriggja stiga karfa frá ÍR-ingum þegar 30 sekúndur lifðu leikhlutans tryggði þeim þó 60-62 forustu fyrir loka fjórðunginn.

Gott spil Vestra hélt áfram í fjórða leikhluta og leiddu þeir 87-79 þegar rúmar tvær mínútur lifðu leiks. Gestirnir gáfust þó ekki upp og náðu muninum í 90-87 þegar skammt lifði leiks. Hjálmar Jakobsson gerði þó út um sigurvonir ÍR-inga þegar hann setti niður þriggja stiga körfu um leið og skotklukkan gall þegar skammt var eftir og lokastaðan 93-87.

Byggt á frásögn Sturlu Stígssonar/karfan.is

DEILA