Ríkisstjórnin styrkir Landsbjörg til að efla slysavarnir ferðamanna

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita Slysavarnarfélaginu Landsbjörg fimm milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu vegna endurgerðar á vefnum safetravel.is. Landsbjörg hefur rekið vefinn um árabil en hann er helsti upplýsingavefur almannavarna til að koma mikilvægum skilaboðum til ferðamanna, t.d. vegna óveðurs, ófærðar eða náttúruhamfara.

Mikilvægi slysavarna ferðamanna hefur aukist á undanförnum árum samhliða mikilli fjölgun þeirra. Endurgerð vefsins safetravel.is er brýn til að auka upplýsingamiðlun og leita leiða til að ná til allra þeirra sem fara um landið.

Landsbjörg mun áfram vinna verkefnið í góðu samstarfi við fyrirtæki í ferðaþjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samgöngustofu, Veðurstofuna og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

DEILA