Matvælaráðherra kallar eftir upplýsingum um eftirlit með fiskeldi

 Í ljósi atvika hefur matvælaráðherra óskað eftir upplýsingum frá Matvælastofnun um fyrirkomulag eftirlits með rekstrarleyfishöfum fiskeldis frá því seiði eru sett í kvíar og þar til slátrun er lokið.

Gat uppgötvaðist 29. ágúst 2021 á kví á eldissvæði Arnarlax við Haganes í Arnarfirði. Fiskistofa lagði net við umrædda kví en engir laxar veiddust á þeim tímapunkti. Tæpu ári síðar, eða þann 26. ágúst sl. barst Matvælastofnun tilkynning um laxa sem veiddust í Mjólká í Arnarfirði, og vaknaði grunur um að þar væri um eldislax að ræða. Fiskistofa hóf strax veiðar og veiddust alls 43 laxar, þar af 28 eldislaxar. Af eldislöxunum mátti rekja 24 til umræddrar kvíar.   

Þann 11. október sl. lauk slátrun úr umræddri kví. Fjöldi slátraðra laxa gaf Matvælastofnun ástæðu til að ætla að misræmi væri til staðar í talnagögnum sem Arnarlax hefur sent inn í samræmi við rekstrarleyfi og gildandi lög og reglugerðir um fiskeldi. Misræmið gæti varpað ljósi á umfang stroksins og hefur Matvælastofnun hafið rannsókn og kallað eftir gögnum frá rekstrarleyfishafa. 

DEILA