Landhelgisgæslan eyddi tundurdufli

Í síðustu viku hafði skipstjóri íslensks togskips samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnti að djúpsprengja hefði komið í veiðarfæri skipsins.

Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út og hélt áleiðis til Siglufjarðar en skipið var á siglingu norður af landinu og áætlaði að landa í bænum. Séraðgerðasveitin var komin á Siglufjörð í um kvöldið og hélt strax til móts við skipið á slöngubát. Á öðrum tímanum um nóttina var sveitin komin um borð í skipið og hífði djúpsprengjuna sem reyndist vera tundurdufl í bátinn og fór með það í land.

Daginn eftir var farið með tundurduflið út á Siglunes þar sem því var eytt. Um var að ræða breskt tundurdufl frá seinni heimsstyrjöldinni og enn þann dag í dag kemur það reglulega fyrir að um áttatíu ára gömul vígtól komi í veiðarfæri íslenskra fiskiskipa. Landhelgisgæslan þarf reglulega að eyða slíkum sprengjum sem geta reynst stórhættulegar, sérstaklega í ljósi aldurs þeirra og hugsanlegrar tæringar.

Sjaldan er ein báran stök því slökkviliðsstjórinn á Siglufirði hafði einnig samband við séraðgerðasveitina sem var stödd í bænum vegna tundurduflsins og tjáði sprengjusérfræðingunum að hann hafi fengið vitneskju um áratugagamlar hvellhettur fyrir dínamít sem nauðsynlegt væri að eyða. Sveitin brást hratt og vel við beiðni slökkviliðsstjórans og eyddi hvellhettunum örugglega. Dagurinn á Siglufirði var því nokkuð annasamur fyrir sprengjusérfræðingana.

Tundurduflið um borð í togskipinu. 

DEILA