Drekinn Krakusek og salamandran Sandra verða lukkudýr Evrópuleikanna sem haldnir verða í Póllandi á næsta ári.
Haldin var teiknimyndasamkeppni á meðal 5 – 15 ára barna og lukkudýrin valin út frá þeim teikningum sem skilað var inn. Var það Katarzyna Bista, 15 ára, sem teiknaði drekann Krakusek og Gloria Goryl, 10 ára, sem teiknaði salamöndruna Söndru. Meðfylgjandi mynd er af frummyndum verðlaunahafanna en endanleg útgáfa lukkudýranna verður unnin af grafískum hönnuðum.
Lukkudýrin tvö munu spila stórt hlutverk í að koma á framfæri mottó leikanna sem er „We are unity” sem gæti útlagst sem „Við erum ein heild”, sameina heim goðafræðinnar og hinn raunverulega heim og sameina fólk með ólíkan bakgrunn, líkt og íþróttirnar gera.
Drekar eru íbúum Kraká hjartfólgnir og er meðal annars dreki í merki borgarinnar. Margar sögur eru til um dreka sem bjó í helli undir konungskastalanum á Wawel-hæð. Sagt er að drekinn hafi ætlað að éta alla íbúa Kraká en hann var drepinn af fátækum skósmið sem hlaut konungsdótturina að launum