Kortleggja á stjórnunar- og eignatengsla í sjávarútvegi

Matvælaráðuneytið hefur gert samning við Samkeppniseftirlitið um að tryggja fjárhagslegt svigrúm til að stofnunin geti ráðist í athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Samhliða er stefnt að auknu samstarfi stofnana á þessu sviði, þ.e. Samkeppniseftirlitsins, Fiskistofu, Skattsins og Seðlabanka Íslands.

Athuguninni er fyrst og fremst ætlað að auka gagnsæi og bæta stjórnsýslu á sviði eftirlits með stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Í athuguninni felst upplýsingasöfnun og kortlagning eignatengsla sjávarútvegsfyrirtækja sem hafa fengið úthlutað ákveðnu umfangi aflaheimilda og áhrifavaldi eigenda sjávarútvegsfyrirtækja í gegnum beitingu atkvæðisréttar og stjórnarsetu í fyrirtækjum.

Framangreind kortlagning verður sett fram í sérstakri skýrslu. Skýrslan verður afhent matvælaráðuneytinu eigi síðar en 31. desember 2023. 

Þetta er gert í samræmi við stjórnarsáttmála og áherslur Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra sem vinnur nú að heildarstefnumótun í sjávarútvegi undir yfirskriftinni Auðlindin okkar.

DEILA