Íslenskur landbúnaður í Laugardalshöll um helgina

Sýningin Íslenskur landbúnaður 2022 verður haldin í Laugardalshöllinni 14. til 16. október. Sýningin er beint framhald af samnefndri sýningu sem haldin var haustið 2018.

Sú sýning var einstaklega vel sótt og er engin ástæða til annars en að ætla að svo verði á ný að sögn Ólafs M. Jóhannessonar, framkvæmdastjóra Íslensks landbúnaðar 2022: “Markmið sýningarinnar er að kynna fjölbreytni íslensks landbúnaðarog hreinleika íslenskrar matvælaframleiðslu. Sýningin verður jafnframt öflugur kynningarvettvangur þjónustufyrirtækja í landbúnaði og geta bændur og aðrir gestir kynnt sér það nýjasta í tækjum og hvers kyns rekstrarvörum fyrir landbúnaðinn,” segir Ólafur.

Að sögn Ólafs er mikil gróska í sveitum landsins. “Við finnum það á viðtölum við bændur að sveitirnar eru að blómstra. Ferðaþjónustan hefur tekið risastökk og svo er öll tækniþróun að létta mjög undir hjá bændum. Þeir eru jafnvel farnir að stýra ýmsu í gripahúsum í gegnum tölvubúnað. Þá eru líka litlir landbúnaðarframleiðendur víða að af landinu með mjög forvitnilega bása. Fjölbreytileiki landbúnaðarvara eykst stöðugt og er einstaklega gaman að geta tekið þátt í því að kynna alla þessa grósku og fjölbreytileika á svona stórri sýningu en hún fyllir 5.000 fermetra sal nýju Laugardalshallar,” segir Ólafur ennfremur og bætir við að forsvarsmenn sýningarinnar séu afar ánægðir með þá fyrirlestradagskrá sem boðið verður upp á.

“Fyrirlestar í senn fróðlegir og áhugverðar og nýjar hugmyndir reifaðar. Eitt er víst að það hefur sjaldan verið ríkari þörf á öflugum innlendum landbúnaði og nú um stundir þegar ríkja stríð og plágur. Hollur er heimafenginn baggi!“ segir Ólafur að lokum.

Meðal fyrirlesara á sýningunni eru Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur í nautgriparækt hjá RML, Margrét Ósk Ingjaldsdóttir, söluráðgjafi hjá SS, Hrefna Jóhannesdóttir skipulagsfulltrúi og Úlfur Óskarsson verkefnastjóri hjá Skógræktinni og Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs.

Sýningin Íslenskur landbúnaður 2022 er opin á föstudag: 14. október kl. 14.00-19.00, laugardag: 15 október kl. 10.00-18.00 og sunnudag: 16. október kl. 10.00-17.00.

DEILA