Ísafjörður – Listamannaspjall á Engi

Gestavinnustofur ArtsIceland á Ísafirði sækir fjölþjóðlegur hópur listamanna.

Á hverjum tíma geta tveir listamenn dvalið í Aðalstræti og frá maí og fram í nóvember geta þrír listamenn dvalið á Engi við Seljalandsveg 102.

Nú er tímabilinu á Engi að ljúka þetta árið og því vel við hæfi að síðustu tveir listamennirnir bjóði gestum að hlýða á stutta kynningu á verkum sínum og dvölinni á Ísafirði í þessu húsi lifandi listsköpunar.

Jennifer Munday er myndlistarkona og starfar sem dósent við Charles Sturt háskólann í Ástralíu. Bakgrunnur hennar er úr sviðslistum en undanfarin ár hefur hún skapað sjónræna list út frá rannsóknargögnum. Meðan á dvölinni á Engi hefur staðið hefur hún unnið að verkefninu Póstkort frá Vestfjörðum.

Ruth McDermott kemur frá Sydney og er með doktorsgráðu í hönnun. Síðastliðin 13 ár hefur hún í samstarfi við Ben Baxter sýnt á hátíðum sem byggja á ljósahönnun á stórum skala. Meðan á dvöl hennar við gestavinnustofur ArtsIceland hefur staðið hefur hún lagt áherslu á að kanna áferð og liti landslags með það fyrir augum að skapa úr því verk í framtíðinni.

DEILA