Hælavíkurbjarg

Hælavíkurbjarg (258m) er fuglabjarg á milli Hælavíkur og Hornvíkur.

Undir bjarginu er svokölluð Heljarurð, þar sem 18 Englendingar eru sagðir grafnir undir skriðunni. Þeir stálust þangað til eggja- og fuglatekju og fórust vegna galdra Halls á Horni. Innst í bjarginu er Hvannadalur og utan hans er Hvannadalabjarg. Utan þess eru tröllahlöðin Langikambur, Fjöl og yzt Súlnastapi í sjó.

Hælavík er vestan bjargsins og handan hennar er Skálakambur. Hún er að mestu hömrum girt og lítið undirlendi. Þar var búið fram undir miðja 20. öldina. Samkvæmt annálum gekk ísbjörn þar á land árið 1321 og reif í sig 8 manns.

Hinn 2. maí 2011, kl. 09:00 tilkynnti skipstjóri hrognkelsabáts um ísbjörn, sem hvarf í þoku uppi í hlíðum Hælavíkur. Ekki var vitað um ferðamenn á svæðinu, en komið var í veg fyrir fyrirhugaða ferð þennan daginn. Viðbragðsáætlun var strax virkjuð og dýrið, sem hafði skokkað alla leið til Rekavíkur, var skotið samdægurs úr þyrlu landhelgisgæzlunnar. Þetta var líklega fjögurra ára birna, sem vóg um 150 kíló.

Af vefsíðunni is.nat.is

DEILA