Gramsverslun fæst gefins

Ísafjarðarbær auglýsir eftir áhugasömum aðilum til að taka yfir húsið við Vallargötu 1 á Þingeyri, einnig þekkt sem Gramsverslun, fasteignarnúmer F2125570, með þeim kvöðum að húsið verði gert upp og komið aftur í upprunalega mynd eftir því sem kostur gefst.

Gramsverslun er byggð 1890, samkvæmt skráningu. Grunnflötur hússins er 137 fermetrar og er heildargólfflötur um 350 fermetrar. Húsið er tvær hæðir og ris, byggt úr timbri og klætt að utan með bárujárni.

Að beiðni Ísafjarðarbæjar fór Tækniþjónusta Vestfjarða yfir ástand hússins árið 2021. Samkvæmt skoðunarskýrslu er það í slæmu ástandi. Eftirfarandi viðgerðir og endurbætur eru nauðsynlegar til að koma húsinu í nothæft ástand:

  • Fjarlægja undirstöður og gólfplötu fyrstu hæðar og steypa nýjar undirstöður.
  • Gera við burðargrind og timburklæðningu útveggja, endurnýja bárujárn og frágangslista við þakbrúnir.
  • Lagfæra burðarvirki innanhúss með því að lagfæra súlur og bita og setja einangrað timburgólf á fyrstu hæð.
  • Lagfæra sperrur, lektur og þakklæðningu, endurnýja þakstál, áfellur, þakrennur og niðurföll.
  • Endurnýja alla glugga og hurðir.
  • Rétta húsið af.

Skoðunarskýrsluna má finna hér: Skoðunarskýrsla Tækniþjónustu Vestfjarða, 29. september 2021.

Húsið verður afhent í núverandi ástandi. Ekki er vitað hvort húsið er tengt við vatns- eða fráveitukerfi sveitarfélagsins. Nýir eigendur skulu greiða tengigjöld hita-, vatns- og fráveitu samkvæmt gildandi gjaldskrá sveitarfélagsins og Orkubús Vestfjarða.

Umsóknum um að taka húsið yfir, ásamt áætlunum um endurbætur og framtíðarsýn varðandi notkun hússins, skal skilað rafrænt á bygg@isafjordur.is eigi síðar en 24. október 2022.

Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum tilboðum.

DEILA